ISL | EN
1.

Fyrir Ísland

Nýr kafli er hafinn

Með stórkostlegum árangri síðustu ára hafa landslið Íslands vakið athygli heimsbyggðarinnar. Með sterkri liðsheild og óþrjótandi stuðningi þjóðarinnar höfum við sýnt að við getum staðið jafnfætis hvaða liði sem er.

Við höfum nýtt styrkleika okkar og lært af sætum sigrum og bitrum ósigrum, sem hafa mótað okkar gildi. Þessir þættir hafa fært okkur innblástur fyrir nýja ásýnd, sem er í senn táknræn fyrir íslenska arfleifð, sögu og liðsheild.

Saman hefjum við þennan næsta kafla — fyrir Ísland.

2.

Táknmyndir Íslands

Innblástur og saga

Síðasta aldarfjórðung hefur tákn landsliðanna verið samsett úr upphafsstöfum KSÍ, fótbolta og íslenska fánanum. Merkið hefur bæði staðið fyrir ímynd sambandsins og landslið Íslands. Eftir því sem starfsemi sambandsins hefur þróast, ímynd Íslands vaxið og árangur landsliðanna aukist, hefur merkið átt erfiðara með að standa undir þessu tvískipta hlutverki. Þörf hefur skapast fyrir merki sem fangar betur grunngildi og uppsprettu liðsandans; ástríðufullt sameiningartákn sem laðar fram styrkleika okkar, sögu og baráttuanda.

Þörf hefur myndast fyrir merki sem fangar betur grunngildi og uppsprettu liðsandans. Ástríðufullt sameiningartákn sem laðar fram styrkleika okkar, sögu og baráttuanda.
Úr stefnumótunarvinnu

Skjaldarmerki Íslands, samþykkt með forsetaúrskurði á lýðveldisdaginn árið 1944, er eitt þekktasta tákn Íslands.

Í lögum er því lýst svo:
Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar alkunnu fjórar landvættir, þannig: Dreki, gammur, griðungur og bergrisi.

Landvættamerkið, 1918
Lýðveldismerkið, 1944
Merki Seðlabanka Íslands

3.

Landvættir

Griðungur, gammur, dreki og bergrisi

Landvættir eru yfirnáttúrulegar verur sem bjuggu í landinu við komu landnámsmanna og vernduðu eyjuna afskekktu. Í Landnámabók segir frá því hvernig menn voru varaðir við að sigla að landinu með „gapandi höfuð og gínandi trjónur“ til að styggja ekki landvættirnar.

Landvættirnar hafa verið verndarar Íslands frá árinu 1918 og eru hinar fullkomnu táknmyndir fyrir landslið Íslands. Þær eru tákn samstöðu og verja vígið okkar sem önnur lið óttast, heimavöllinn. Baráttuandinn, viljinn og þrautseigjan eru alltumlykjandi.
Alkunn er frásögn Snorra Sturlusonar um Harald Danakonung Gormsson er hann ætlaði að fara herferð til Íslands.

4.

Nýtt merki

Fortíð mótar framtíð

Nýtt merki er tákn um óbilandi samstöðu, innblásið af arfleifð og mótandi sögu, sem fléttar saman landvættir Íslands á nútímalegan máta. Merkið er margslungið en skýrt og byggir á fyrri skjaldarmerkjum – en stendur eitt og sér sem auðkennandi tákn landsliða Íslands.

Nútímavörumerki þurfa að búa yfir sveigjanleika og geta aðlagað sig á fjölbreyttan hátt. Það sem gerir merkið enn sterkara er að vættirnar geta staðið stakar til þess að mynda heildarumgjörð í vissum tilfellum.

Það er ríkjandi hefð að knattspyrnumerki standi á skildi frá þeim tíma að riddarar báru sín skjaldarmerki.

Merki landsliðanna sækir hins vegar ekki í riddara heldur í okkar sögu, náttúru og arfleifð.

5.

Innleiðing

Ein samofin heild

Ljóst er að ásýnd og umgjörð landsliðanna tekur miklum breytingum á næstu misserum. Á komandi mánuðum innleiðir KSÍ nýja ásýnd sem færist smám saman yfir á alla snertifleti. Helst ber að nefna nýjan landsliðsbúning frá PUMA með landvættamerkinu sem verður formlega kynntur í lok ágúst 2020.

Nútímavörumerki þurfa að búa yfir sveigjanleika og geta aðlagað sig á fjölbreyttan hátt. Það sem gerir merkið enn sterkara er að vættirnar geta staðið stakar til þess að mynda heildarumgjörð í vissum tilfellum.

6.

Letur

Nútímalegt handverk

„Vættir“ er sérteiknað fyrirsagnaletur sem styður kröftuglega við merkið með sínum einkennandi lágstöfum. Stafirnir sækja innblástur í íslenskt handverk og er útkoman einstök blanda eldri hefða og nútímalegra stílbrigða. Letrið verður í lykilhlutverki við að festa merkið og ásýnd okkar í huga fólks um heim allan.

Vættir letur

Höfðaletur - Íslenskur tréútskurður.

7.

Tónlist

Hljóðheimur landsliðanna

Tónlistin sem fylgir nýju merki landsliðanna úr hlaði er sérútgáfa af nýrri einkennistónlist íslensku landsliðanna í knattspyrnu. Henni er ætlað að skapa baráttuhughrif og gera upplifunina sem fylgir því að horfa á íslenskan landsleik einstaka.

Hljóðheimurinn er taktfastur og hvetjandi. Hann undirstrikar seiglu og þrautseigju og skírskotar til Íslands á sterkan hátt. Hrynjandi einkennislagsins vísar til víkingaklappsins og að auki má greina áhrifahljóð út íslenskri náttúru; veðurgný og náttúruumbrot.

8.

KSÍ og landslið Íslands

Tvö aðskilin vörumerki

Þetta viðamikla verkefni er afrakstur ítarlegrar greiningarvinnu og stefnumótunar KSÍ sem naut m.a. ráðgjafar UEFA í ferlinu. Með tveimur aðskildum vörumerkjum styrkjum við og eflum ásýnd sambandsins og landsliðanna enn frekar.

Sem áður verður sambandið leiðandi í því að bjóða fræðslu og stuðning í uppbyggingarstarfi með faglegri og framsækinni umgjörð sem myndar sterka skipulagsheild. Landvættamerki landsliðanna verður tákn liðsheildar og skapar einstakt vörumerki sem heldur gildum okkar og sögu á lofti.

Hönnun og listræn stjórnun: Brandenburg
Ljósmyndir fyrir PUMA: Svenni Speight
Leikstjórn: Hannes Þór Halldórsson
Þulur: Hera Hilmarsdóttir
Tónlist: Pétur Jónsson
Myndskreytingar: Ásgeir Jón Ásgeirsson

© 2020 KSÍ Knattspyrnusamband Íslands